Landmælingar Íslands eignast nýjan loftmyndaskanna
Árið 2008 var ákveðið að koma loftmyndum Landmælinga Íslands á rafrænt form og í því skyni var keyptur loftmyndaskanni til verksins. Síðan þá hefur skanninn gengið nánast dag og nótt og hafa um 44% mynda úr loftmyndasafninu verið skannaðar. Eftir tíu ára stanslausa vinnu gafst gamli skanninn upp og var því ákveðið að festa kaup á nýjum skanna af gerðinni Wehrli RM-6.
Að sögn Carstens J. Kristinssonar, sem sér um að skanna loftmyndirnar, er nýi skanninn öðruvísi uppbyggður en sá gamli og með annan þankagang. Meðal annars greinir hann betur á milli myndramma og á því hægara með að skanna heilar filmur án þess að mannshöndin komi það nærri. Með nýja skannanum sér stofnunin fram á að á næstu árum verði hægt að klára að skanna loftmyndasafn Landmælinga Íslands sem hefur að geyma um 140.000 loftmyndir frá tímabilinu 1937-2000. Þetta safn er ómetanlegt vegna sögulegs samanburðar og verður ekki metið til fjár og því mikilvægt að koma því á rafrænt form sem auðveldar bæði miðlun og varðveislu. Allar rafrænar loftmyndir Landmælinga Íslands eru aðgengilegar á vef stofnunarinnar öllum til frjálsra afnota og án endurgjalds.