Landhelgisgæslan og Landmælingar efna til samstarfs
Eydís L. Finnbogadóttir, settur forstjóri Landmælinga Íslands og Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.
Landupplýsingar Landhelgisgæslunnar gerðar aðgengilegar og strandlína Íslands endurbættGeorg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Eydís Líndal Finnbogadóttir, settur forstjóri Landmælinga Íslands, skrifuðu í dag undir samstarfssamning sem felur í sér samstarf stofnananna um aukið aðgengi almennings að rafrænum kortaupplýsingum og endurbótum á strandlínu landsins. Landmælingar Íslands hafa á undanförnum árum eflt miðlun kortagagna sinna á vefnum og með samstarfi við Landhelgisgæsluna eru stefnt að því að gera mikilvægar landupplýsingar sem unnar hafa verið af sjómælingum aðgengilegar almenningi í landupplýsingagátt LMÍ. Að auki er stefnt að því að aðgangur að landupplýsingum Landhelgisgæslunnar verði öllum opinn og gjaldfrjáls. Stofnanirnar telja einnig afar brýnt að ráðast í endurbætur á strandlínu landsins svo hægt sé að tryggja öryggi sjófarenda, fylgjast með hækkandi sjávarborði vegna loftslagsbreytinga og tryggja faglega skipulagsvinnu. Stórstraumsfjörumörk og vel skilgreind strandlína eru mikilvægar upplýsingar vegna siglingaöryggis, náttúruverndar, eigna- og stjórnsýslumarka, skipulags og náttúruvár s.s. í formi sjávarflóða vegna loftslagsbreytinga og hækkandi sjávarstöðu. Vöktun á sjávarstöðu byggir á grunngögnum og síritandi mælum en slíkt kerfi er aðeins að litlu leyti virkt á Íslandi. Þá er öryggi í siglingum að stórum hluta bundið upplýsingum í sjókortum en afar mikilvægt er að í þeim sé strandlína lands, eyja og skerja rétt skilgreind bæði á flóði og stórstraumsfjöru. Auk öryggis sjófarenda skipar strandlína stóran sess í skipulagsmálum landsins en á síðustu árum og áratugum hefur strandlína eða stórstraumsfjöruborð oft verið notuð sem viðmiðun eða tilvísun í margskonar lög og reglugerðir án þess að þessi lína eða mörk hafi verið mæld eða skilgreind nánar.Það er einnig von stofnananna að aukið aðgengi að bættum rafrænum kortaupplýsingum hvetji til aukinnar nýsköpunar, rannsókna og nýrra tækifæra fyrir fólkið í landinu.
Â