Kraftur í skráningu lýsigagna
Skráning lýsigagna inn í Landupplýsingagáttina hefur gengið vel og virðist vera kominn nokkur kraftur í skráninguna nú í byrjun vetrar. Þegar við kíktum á tölfræðina var skemmtilegt að sjá að yfir 50% skráninga hafa komið inn nú í nóvember og voru þar stórtækastir kollegar okkar hjá Reykjavíkurborg og Orkuveitunni. Alls hafa borist 40 skráningar inn í gáttina og þar af eru 72,5% samþykktar, 17,5% aðeins uppköst og 10% innsendar en með ófullnægjandi skráningu. Notkun gáttarinnar sem skráningarmiðils virðist enn sem komið er vera vinsælli aðferð en að hlaða upp tilbúnum lýsigögnum en þar á milli er hlutfallið u.þ.b. 60% á móti 40%. Það er gaman að sjá hversu fjölbreyttur notendahópur hefur staðið að skráningu lýsigagna, en alls níu notendur úr ólíkum áttum hafa skráð inn í gáttina.
Eins og alltaf höfum við mikinn áhuga á að heyra hvað ykkur finnst um gáttina og önnur málefni tengd grunngerð landupplýsinga, INSPIRE tengd eða ekki. Einnig ef einhverjar spurningar vakna erum við boðin og búin að aðstoða eftir fremsta megni. Allar ábendingar og spurningar skulu berast Eydísi Líndal, sviðsstjóra LMÍ á elf @ lmi.is