Fara í efni

Kortlagningu landgerða á Íslandi lokið

Byggingarsvæði stækkuðu um 1059% á árunum 2000 til 2006 og jöklar minnkuðu um 1,62%.
 Þetta er meðal þess sem lesa má út úr upplýsingum sem Landmælingar Íslands hafa tekið saman og sett á vef sem sýnir yfirborð og landgerðir á Íslandi. Gögnin verða nýtt til þess að fylgjast með breytingum á landnotkun auk þess sem þau nýtast sem grundvöllur að umhverfisstjórnun og í margvíslegri vinnslu í landupplýsingakerfum.  CORINE-vefsjá CORINE-skýrsla (2,5mb) Verkefnið sem nefnist CORINE (Coordination of Land Information on the Environment) var unnið í samvinnu við sveitarfélög landsins og fjölda íslenskra stofnana. Sérfræðingar Umhverfisstofnunar Evrópu sáu um ráðgjöf og gæðaeftirlit.  Í CORINE-verkefninu er landið flokkað í fimm grunnflokka sem skiptast í 44 mismunandi landgerðir. Ísland einkennist umfram allt af náttúrulegum landgerðum en um 88% landsins falla í þá flokka og eru stærstu landgerðirnar mólendi, mosi og kjarr (35%), ógróin hraun og urðir (23%), hálfgróið land (13%), jöklar (10,5%) og mýrar (6,3%).   Í verkefninu var Ísland flokkað fyrir árið 2000 annars vegar og fyrir árið 2006 hins vegar en alls skipti um 0,62% af yfirborði Íslands um landgerð á þessu tímabili. Langmest breyting varð á byggingarsvæðum, eða 22,7 km2 sem er aukning um 1059%. Þá stækkuðu iðnaðar- og verslunarsvæði um 20% sem skýrist aðallega af virkjunarframkvæmdum og aukning sumarbústaðasvæða stækkuðu þann flokk um 15%. Einnig kemur fram að jöklar landsins minnkuðu um rúmlega 180 km2 (eða 1,62%) milli áranna 2000 og 2006.   Gögnin eru aðgengileg í vefsjá auk þess sem hægt verður að fá þau afhent án endurgjalds til notkunar í landupplýsingakerfum.   Frekari upplýsingar veita: Kolbeinn Árnason (kolbeinn@lmi.is) eða Gunnar H. Kristinsson (gunnar@lmi.is)