Fara í efni

Kortavefsjá íslenskra sjókorta opnuð

Landhelgisgæslan opnar í dag aðgang að vefsjá með íslenskum sjókortum. Stofnunin hefur á liðnum mánuðum átt í góðu samstarfi við Landmælingar Íslands og notið liðsinnis starfsmanna Landmælinga við að hrinda þessu verkefni í framkvæmd. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og Eydís Líndal, forstjóri Landmælinga Íslands, gerðu með sér samning í fyrra sem fól í sér samstarf stofnananna um aukið aðgengi almennings að rafrænum kortaupplýsingum og endurbættum kortagögnum af strandlínu landsins. Opnun kortavefsjárinnar er liður í þessu aukna samstarfi. Vefsjána má finna hér: http://gis.lmi.is/sjokort/ Sjókortin sem þar eru aðgengileg eru rastamyndir af íslensku sjókortunum eins og staðan var á útgáfunni á miðju þessu ári. Tekið skal fram að sjókortin í vefsjánni eru ekki leiðrétt samkvæmt Tilkynningum til sjófarenda. Það er von Landhelgisgæslunnar og Landmælinga Íslands að samfélagið hafi bæði gagn og gaman af þessum aukna aðgangi að sjókortum.