Fara í efni

Kort sýnir eldgos í Eyjafjallajökli

Á síðustu vikum og misserum hefur Eyjafjallajökull verið í umræðunni vegna mögulegs eldgoss þar. Hæfist þar eldgos yrði það væntanlega tilkomumikið sjónarspil þar sem kvikan myndi væntanlega koma í snertingu við jökulís. Yrði þá mikil og snögg bráðnun uppi í fjallinu sem gæti leitt til mikils vatnagangs, annað hvort í fjallinu norðan- eða sunnanverðu. Eyjafjallajökull gaus síðast árin 1821-1823 og var það í annað sinn á sögulegum tíma. Um það leyti var gefið út kort vegna strandmælinga við Ísland.   Á kortinu fyrir Suðurland er mynd sem sýnir eldgosið í Eyjafjallajökli með Vestmannaeyjar í forgrunni. Kortið var gefið út árið 1823. Danska stjórnin sendi hingað mann, Graah að nafni, til að ganga frá útgáfu kortanna sem staðið höfðu yfir í áratugi og teljast afar merkilegur áfangi í kortasögu landsins. Graah kom til landsins árið 1821 og má telja líklegt að hann hafi gert myndina í för sinni.