Fara í efni

Könnun á vef Landmælinga Íslands

Undanfarin ár hafa Landmælingar Íslands staðið fyrir könnun á notkun á vefsíðu stofnunarinnar, bæði meðal íslenskra og erlendra notenda. Niðurstöður þessara kannana hafa meðal annars verið notaðar til að koma til móts við þarfir notenda og fá fram sýn þeirra á því hvernig bæta má þá þjónustu sem vefurinn hefur upp á að bjóða. Í könnun sem gerð var í júní síðastliðnum kom í ljós að flestir sem heimsækja vefinn eru, eins og fyrri kannanir hafa sýnt, að skoða kort, Kortasjá, Örnefnasjá og loftmyndir og ástæður heimsóknanna eru vegna vinnu, útivistar og áhuga. Fram kemur að flestir þekkja til vefsins og fara inn á hann reglulega og um 70% svarenda segjast vera fljótir að finna það sem þeir leita að. Í þriðja skiptið í röð var spurt um traust til Landmælinga Íslands og voru niðurstöður nánast þær sömu og í síðustu könnun, þ.e. um 90% svarenda bera mjög eða frekar mikið traust til stofnunarinnr.