Fara í efni

Könnun á stöðu landupplýsinga hjá stofnunum og sveitarfélögum

Komin er út skýrsla með niðurstöðum úr könnun sem Landmælingar Íslands stóðu fyrir síðastliðið vor um stöðu landupplýsinga hjá opinberum aðilum. Könnunin var send til 40 stofnana og 74 sveitarfélaga og sá ráðgjafafyrirtækið Alta um framkvæmdina en úrvinnsla var í höndum Landmælinga Íslands. Nú eru liðin rúm 4 ár síðan lög nr. 44/2011 um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar voru samþykkt á Alþingi. Markmið laganna er að byggja upp og viðhalda aðgengi að stafrænum landupplýsingum á vegum stjórnvalda en lögin tengjast INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins. Könnunin er mikilvægur þáttur í innleiðingu íslenskrar grunngerðar landupplýsinga. Með því að taka þátt í könnuninni fengu þátttakendur tækifæri til að staðsetja gögn sín í íslenskri grunngerð en jafnframt var könnunin mikilvæg í stærra samhengi því hún mun nýtast sem undirbúningur fyrir skýrslugerð Íslands vegna INSPIRE. Árlega þarf að skila inn stöðuskýrslu og nákvæmri skýrslu á þriggja ára fresti. Fyrstu skil Íslands vegna þess var  í byrjun árs 2013. Ekki eru allar stofnanirnar sem tóku þátt í könnuninni með hnitsett gagnasett, en hjá 32 stofnunum komu fram 326 hnitsett gagnasett. Hefur þeim fjölgað um 59 frá síðustu könnun sem var gerð árið 2012. Stofnanirnar höfðu aðgang að skráningu sinni frá síðustu könnun og höfðu því tækifæri til að fara yfir þær skráningar og leiðrétta eða uppfæra. Gagnasettum hefur fjölgað hjá 15 stofnunum og kunna að vera nokkrar ástæður fyrir þessari aukningu á skráðum gagnasettum. Áhugavert er að rýna skráningar viðkomandi stofnana og fylgir skýrslunni töflureiknisskjal þar sem hægt er að skoða hvaða gagnasett voru talin upp og hvaða þemum þau tengjast. Flest gagnasett, eða 34 komu fram undir þemanu Flutninganet og fæst undir þemunum Skilyrði í lofthjúpi, Jarðefnaauðlindir og Aðstaða fyrir landbúnað og lagareldi  eða tvö undir hverju þema. Eitt þema verður ekki dekkað hér á landi og er það Innhafssvæði. 57 sveitarfélög svöruðu könnuninni sem var með öðruvísi og einfaldara sniði en könnunin sem lögð var fyrir stofnanir. Sveitarfélögin svöruðu 18 spurningum sem varða umsýslu landupplýsinga, kostnað og aðgang að gögnum sem sveitarfélögin eiga á sjálf eða hafa aðgang að. Í stað þess að sveitarfélögin teldu upp hnitsett gagnasett var spurt annars vegar  hvort sveitarfélagið ætti sjálft gögn sem tengdust ákveðnum flokkum eða hefðu aðgang að þeim í gegnum einkaaðila.
Á meðfylgjandi mynd eru sveitarfélög sem tóku þátt í könnuninni merkt með bláu.
  Â