Jarðstöðvakefi Landmælinga þétt með nýrri stöð
Í byrjun júní bættist ný mælistöð við jarðstöðvakerfi Landmælinga Íslands, en nýja stöðin er staðsett í landi Skarðshamra í Norðurárdal í Borgarfirði. Jarðstöðvar í kerfi Landmælinga Íslands eru þá orðnar 15 alls og nýtast við margvísleg verkefni þar sem þörf er á nákvæmum staðarákvörðunum t.d. á sviði rannsókna á náttúrunni, á sviði vöktunar á hreyfingum jarðar og vegna framkvæmda. Mæligögn frá öllum stöðvunum streyma til stofnunarinnar í rauntíma og eru aðgengileg án endurgjalds á vef hennar. Landmælingar Íslands hafa verið í góðu samstarfi við Landsvirkjun, Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og erlendar rannsóknarstofnanir vegna uppbyggingar jarðstöðvakerfisins og munu á næstu árum þétta net jarðstöðva enn frekar í samvinnu við þessa aðila.
Landmælingar Íslands vinna að því að byggja upp GNSS-jarðstöðvakerfi (e: global navigation satellite system) á Íslandi sem er kallað IceCORS (Icelandic Continously Operating Reference Stations). Helstu tæknieinkenni þjónustunnar eru:
- Undirstaða loftnets: fjórfótur úr stáli, þak, strompur, stöpull.
- Sporvöluhæð (GRS80/WGS84) fyrir stöðvarnar er á milli 77 og 1035 metrar.
- Bílgeymir er hafður sem trygging fyrir þriggja daga uppitíma.
- Stjórnstöð (server LMÍ) fær gagnastreymið frá viðmiðunarstöðvunum með því að nota internettengingu. Í sumum tilfellum er notast við +PC+NtripCaster tengingu til að fá aðgang að gagnastreyminu.
- Flestir móttakaranna eru sjálfstæðir, aðrir tengjast við tölvu á staðnum.
- Hver stöð streymir gögnum og hrágögnum í rauntíma. Hrágögn eru á sérstöku formi og eru skráð í minni móttakarans eða í tölvu.
- Samskipti um 3G og ADSL.
- Ekki eru allar viðmiðunarstöðvar með GPS+GLONASS aðgengi.
- Algildar kvarðanir á loftnetum eru notaðar fyrir viðmiðunarstöðvar.
- Geo++GNSMART hugbúnaður er notaður fyrir eftirlit við stöðvarnar.
- Stjórnstöð veitir notendum straum í rauntíma (RTCM) og RINEX skrár með því að nota GNWEB.
- Öll mæligögn og rauntímaleiðréttingar hafa viðmiðunina ISN2004.