INSPIRE ráðstefna í Edinborg 27. júní – 1. júlí 2011
Evrópuráðstefna INSPIRE er haldin árlega af Joint Research Center stofnun Evrópusambandsins. Að þessu sinni var ráðstefnan haldin í Edinborg í Skotlandi, dagana 27. júní – 1. júlí 2011. Yfirskrift ráðstefnunnar var Contributing to smart, sustainable and inclusive growth. Ráðstefnan hefur það markmið að kynna hvað er að gerast í innleiðingu INSPIRE tilskipunarinnar í Evrópu og að fara yfir tæknilega þætti hennar.
Að þessu sinni var aðeins einn þátttakandi frá Íslandi á ráðstefnunni, frá Landmælingum Íslands. Hér á eftir eru nokkrir athyglisverðir punktar frá ráðstefnunni en alla fyrirlestra hennar er einnig að finna á síðunni: http://inspire.jrc.ec.europa.eu/events/conferences/inspire_2011/?page=conf_prog
- Ísland hefur líklega haft hag af því að vera á eftir löndum Evrópusambandsins við innleiðingu INSPIRE tilskipunarinnar. Í umræðum vinnuhópa kom í ljós að Ísland stendur að mörgu leiti jafnfætis öðrum og stærri þjóðum Evrópu í verkefninu og hefur lært ýmislegt af mistökum annarra sem hafa farið á undan.
- Öll löndin sem INSPIRE tilskipunin nær til hafa nú lokið við að færa þau inn í lög sín, því átti að vera lokið 2009 en hefur í nokkrum löndum dregist fram til ársins 2011.
- Verið er að vinna að nýrri landupplýsingagátt (Geoportal)fyrir INSPIRE í Evrópu og á hann að vera tilbúinn á árinu 2012.
- Þjóðir Evrópu hafa unnið kannanir til að ákvarða hvaða gögn þær ætla að hafa með sem INSPIRE gögn. Ljóst er að eitthvað sem hægt er að nefna norrænu aðferðina hefur orðið til en það felur í sér að vera með tvöfalt kerfi; annars vegar grunngerð landupplýsinga hvers lands (NSDI – National Spatial Data Infrastructure) og hins vegar INSPIRE gögn sem sótt eru í grunngerðarfyrirkomulagið. Önnur lönd eru hins vegar með öll gagnasett sín inni í INSPIRE en margir eru að velta fyrir sér að aðgreina þetta þar sem um mjög mikinn fjölda af gagnasettum getur verið að ræða (hundruð þúsunda).
- Landmælingar Íslands þurfa að senda út nýja könnun fyrir gagnasett og þjónustur til að fá núverandi stöðu á þessum málum á Íslandi og til að bera saman við niðurstöður könnunarinnar frá 2008.
- Mikil umræða var um mikilvægi þess að hafa góðan aðgang að gögnum og einnig að aðgengi að gögnum eigi að vera gjaldfrjálst. Slíkt aðgengi mun ýta undir nýsköpun með gögnin.
- Nú hafa verið gefin út drög að leiðbeinendareglum fyrir gagnasett úr viðauka III og var nokkuð fjallað um það á ráðstefnunni. Ljóst er þó að mönnum finnst of mikið vera sent af flóknum og löngum skjölum frá vinnuhópunum og vilja frekar fá stutt skjöl með aðalatriðum. Þá er einnig ljóst að menn eru ekki að túlka skjöl sem send hafa verið á milli landa á sama hátt.
- Erfitt hefur reynst að fá upplýsingar um hvernig innleiðing INSPIRE gengur í raun. Svíar hafa komið sér upp árangursstjórnunarkerfi með hjálp Balance Scorecard til að meta hvar þeir eru staddir í innleiðingunni. Í fyrirlestri frá þeim var niðurstaðan sú að þeir væri búnir með 57,8% og myndu nálgast 70% á þessu ári. http://inspire.jrc.ec.europa.eu/events/conferences/inspire_2011/presentations/47.pdf
- Fjallað var um verðmæti upplýsinga og hvar væri best að afla fjár fyrir INSPIRE og landupplýsingamál. Þetta virðist vera mikilvægur þáttur í allri Evrópu og víðast virðist vanta skilning á mikilvægi þessara gagna einkum hjá æðstu stjórnendum. http://inspire.jrc.ec.europa.eu/events/conferences/inspire_2011/presentations/164.pdf
- Afrakstur INSPIRE hefur verið sagður 1:5 allt frá upphafi en erfiðlega hefur gengið að meta raunverulegan hagnað. Svíar hafa þó verið að koma sér upp módeli til að meta slíkt og er það eitthvað sem LMÍ geta litið betur á. Að sýna fram á ávinning við að samnýta gögn er það sem líklega mun auka áhuga á INSPIRE, einkum meðal stjórnmálamanna. http://inspire.jrc.ec.europa.eu/events/conferences/inspire_2011/presentations/46.pdf
- Varðandi notendur gagna kom skýrt fram að þeir hafa ekki áhuga á skipulagi gagna. Þeir eru endanotendur og vilja bara að landupplýsingagáttirnar virki og að þeir geti skoðað eða sótt þau gögn sem þeir eru að leita að. Mikilvægt er því að fylgjast með kröfum notenda frekar en að fylgjast með hvaða notendur eru að nota gögnin.
- Við innleiðingu INSPIRE kemur í ljós að í mörgum löndum þarf hugsanlega að yfirvinna ákveðna hefð sem er í gangi vegna samskipta með gögn. Þannig þarf INSPIRE og gáttir þess að vera einfaldara og aðgengilegra en það kerfi sem þegar er fyrir.
Það er mikilvægt að Ísland sendi þátttakendur á þessa ráðstefnu í framtíðinni til að fylgjast með því sem verið er að gera í innleiðingu INSPIRE í Evrópu. Þarna slær slagæð verkefnisins og því er auðvelt aðgengi að upplýsingum og tengslaneti í gegnum þessa ráðstefnu.