Fara í efni

INSPIRE ráðstefna 2014

Hin árlega INSPIRE ráðstefna var haldin í Álaborg í Danmörku dagana 16. – 20. júní 2014. Fyrir Íslands hönd sóttu tveir starfsmenn Landmælinga Íslands þau Eydís L. Finnbogadóttir og Saulius Prizginas, ásamt Ragnari Þórðarsyni hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu ráðstefnuna. Þar voru til umfjöllunar málefni sem snerta innleiðingu INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins auk grunngerðar landupplýsinga í víðara samhengi. INSPIRE tilskipunin snýst um aukið aðgengi að umhverfistengdum landupplýsingum auk grunnlandupplýsinganna sem þær styðjast við. Ísland hefur innleitt reglugerðina í lög og fara Landmælingar Íslands með framkvæmd laganna m.a. með rekstri landupplýsingagáttarinnar gatt.lmi.is þar sem finna má upplýsingar um fjölda landfræðilegra gagna. Ráðstefnan skiptist í tvennt þar sem tveir fyrstu dagarnir fóru í fjölbreyttar vinnustofur (e. Workshop) með gagnvirkri þátttöku fundargesta sem skiptust á reynslu og þekkingu. Sérstök vinnustofa var fyrir verkefnið eENVplus sem Ísland tekur þátt í, en vert er að nefna að verkefnið hlaut „CEN/TC 287 Award for Excellence and Innovation in INSPIRE“ verðlaunin á ráðstefnunni fyrir framúrskarandi og frumlega notkun á INSPIRE kerfinu í heild. Verkefnið setur upp hagnýt dæmi um nýtingu á INSPIRE og ræður fram úr þeim hindrunum sem koma í ljós. Seinustu þrír dagarnir voru hefðbundnir ráðstefnudagar og nýttu fulltrúar Íslands sér til fulls þá reynslu sem erlendir starfsbræður og –systur hafa áunnið sér við innleiðinguna í sínum heimalöndum, en Ísland og önnur lönd sem innleiða reglugerðina í gegnum EFTA eru með þriggja ára seinkun á öllum skilafrestum og tímasetningum reglugerðarinnar. Allar vinnustofurnar og fyrirlestrarnir voru teknir upp og má nálgast efnið á heimasíðu ráðstefnunnar.