Hvaða plötur eru þetta?
Þeir sem farið hafa um gossvæðið í Geldingadölum haf séð plötur með bleikum og gulum ferningum sem komið hefur verið fyrir á svæðinu. Um er að ræða viðmiðunarpunkta fyrir loftmyndatöku, sem þjóna þeim tilgangi að staðsetja loftmyndir nákvæmlega og auka nákvæmni við úrvinnslu. Einnig er hægt að nota þá til að meta gæði þeirra afurða sem unnar eru úr loftmyndnum (orthomyndir og hæðarlíkön). Til þess að ná fram sem bestum gæðum þarf að passa upp á að punktarnir séu vel dreifðir yfir það svæði sem mynda á hverju sinni.
Til að byrja með voru sett niður flögg með svörtum og hvítum ferningum á umbrotasvæðinu. Þessi merki eru hönnuð fyrir drónaflug. Nokkuð erfitt var að greina þau í þeirri flughæð sem flogið var með Hasselblad vél Náttúrufræðistofnunar. Sérstaklega þegar snjór var yfir svæðinu.
Því var brugðið á það ráð að búa til stærri merki í meira áberandi litum. Voru þau merki gerð úr krossvið með beikum og gulum ferningum.
Í fyrstu voru sett niður níu merki og þau mæld með Fast-Static GNSS mælingum. Síðar var bætt við tveimur merkjum sunnan við „naflausa dalinn“ auk þess sem hluti eldri merkja var endurmældur til þess að kanna stöðuleika þeirra. Einnig voru mæld flögg sem vísindahópur undir stjórn Christopher Hamilton hefur sett niður fyrir drónaflug.
Reynt hefur verið að staðsetja merkin þannig að þau lendi ekki undir hrauni, en ekki er alltaf hægt að koma því við. Þegar þetta er ritað hefur eitt merki farið undir hraun, tvö merki hafa verið færð og eitt hefur brunnið í sinueldum.
Fyrirséð er að það þurfi að bæta við fleiri merkjum eftir því sem hraunið breiðir úr sér.
Viðmiðunarpunktur vestan við Stóra-Hrút þegar hann var settur niður og mældur þann 14. apríl. Þann 18. maí var hraunjaðarinn 5 metra frá merkinu og hefur hann verið færður.