Fara í efni

Háskólanemi skráir örnefni

Hjá Landmælingum Íslands hefur ávallt verið unnið ötullega að skráningu örnefna fyrst á kort og síðustu ár í gagnagrunn stofnunarinnar. Þar hefur samvinna við fólkið í landinu og sérfræðinga hjá nafnfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ávallt verið í fyrirrúmi. Háskólanemar hafa einnig unnið við skráningu örnefna en á dögunum afhenti Þórdís Birna Lúthersdóttir landfræðinemi við HÍ Landmælingum Íslands lokaverkefni sitt í námskeiðinu LUK 2 (landfræðileg upplýsingakerfi 2). Lokaverkefni Þórdísar Birnu fólst í vinnu með örnefni í landi jarðarinnar Forsæludals í Húnavatnshreppi. Þórdís Birna vann með heimamönnum og nýtti sér þrjár örnefnaskrár sem voru til hjá Árnastofnun. Hún staðsetti örnefnin á loftmynd í ArcGIS með aðstoð Lúthers Olgeirssonar og Sigríðar Ragnarsdóttur.

Þórdís Birna útskrifast í júní með BS í landfræði og stefnir hún á framhaldsnám í landfræðilegum upplýsingakerfum sem m.a. eru notuð við að koma upplýsingum á framfæri, t.d. um örnefni, söguna í kringum þau, lýsingar og fl. Hún segir að nám erlendis sé heillandi kostur hvað það varðar.

Landmælingar Íslands hafa tekið verkefni Þórdísar Birnu inn í örnefnagrunn sinn en mikilvægt er að slík verkefni rati inn í samræmdan kortagrunn. 

Um leið og stofnunin þakkar Þórdísi Birnu og heimildarmönnunum fyrir að deila verkefninu með fleirum er henni óskað velfarnaðar í námi og starfi í framtíðinni.

Â