Fara í efni

Góður fundur stjórnenda um grunngerð landupplýsinga

Tilskipun Evrópusambandsins, sem nefnist INSPIRE, snýst um að koma á grunngerð fyrir landupplýsingar og var hún tekin upp á Íslandi með lögum nr. 44/2011 um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar árið 2011.  Landmælingar Íslands fara með innleiðingu þessara laga fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðherra í samvinnu við ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög. Markmið laganna er að stuðla að hagræðingu í rekstri landupplýsingakerfa stjórnvalda, stytta og skýra boðleiðir, koma í veg fyrir tvíverknað og samræma vinnubrögð. Vegna INSPIRE þurfa stofnanir, sveitarfélög og ráðuneyti að standa skil nokkurra verkþátta ef þeir varðveita landupplýsingar, svo sem skráningu lýsigagna og að gera gögnin aðgengileg öllum sem á þurfa að halda á netinu. Gott samstarf og upplýsingaflæði milli aðila hér á landi auðveldar verkefnið auk þess sem mikilvægt er að hafa góð tengsl við sambærileg stjórnvöld í nágrannalöndunum. Til þess að stuðla að góðu upplýsingaflæði um innleiðingu á grunngerð landupplýsinga halda Landmælingar Íslands reglulega samráðsfundi með stjórnendum um 20 helstu stofnana og ráðuneyta sem tilskipunin varðar. Slíkur samráðsfundur var haldinn hjá Landmælingum Íslands á Akranesi þann 17. nóvember 2016 og var hann mjög gagnlegur. Næsti fundur verður haldinn hjá Ferðamálastofu á fyrri hluta næsta árs.