Gríðarlegar vinsældir örnefnakorta
Undanfarnar vikur hafa starfsmenn Landmælinga Íslands búið til örnefnaþemakort landsmönnum til mikillar skemmtunar. Kortin koma oftast út á föstudögum og eru birt á Facebook síðu Landmælinga.
Vikulega er nýtt þema valið og hafa hingað til birst kort með mismunandi dýraþemum, bleiku þema sbr. bleikur október, mjög lýsandi nöfnum t.d. Lónslón og Sandasandur, þríeykisþema þar sem Alma, Víðir og Þórólfur fengu að njóta sín og öðrum skemmtilegum þemum.
Fyrsta kortið var með örnefnum sem innihéldu nafnið kisa eða köttur. Síðan hefur hvert kortið rekið annað og vinsælasta kortið fram til þessa er „hryllingsörnefnakort“ sem kom út í tengslum við hrekkjavöku en yfir 100 þúsund manns hafa séð það kort og rúmlega 500 deilt því. Öll kortin eru í kortasjá sem var búin til fyrir þessi þemakort og má sjá þau í fellilista undir Gögn. Við gerð kortanna eru orðhlutar teknir út, vitandi það að oft vísa heilu orðin í eitthvað allt annað en orðhlutinn, enda er þetta eingöngu til gamans gert. Mikið er um ábendingar um að ákveðin örnefni vanti og staðfestir það að margir Íslendingar eru mjög fróðir og áhugasamir um örnefni og eins og áður er aðstoð staðkunnugra við skráningu á örnefnum vel þegin.