GPS kennsla og gönguferð á Degi íslenskrar náttúru
Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur þriðjudaginn 16. september næstkomandi. Í tilefni dagsins hafa Landmælingar Íslands ákveðið að bjóða þeim sem áhuga hafa, að sækja stutt námskeið þar sem sérfræðingar stofnunarinnar í landmælingum ásamt Hirti Hróðmarssyni fjallgöngumanni, kenna á GPS handtæki og hvernig hægt er að tengja þau við kortavefsjár stofnunarinnar. Námskeiðið stendur í 45 mínútur og að því loknu verður farið í gönguferð í Innstavogsnes, undir leiðsögn Guðna Hannessonar og Eydísar L. Finnbogadóttur, þar sem fólki gefst kostur á að æfa sig í notkun GPS tækjanna.
Námskeiðið hefst kl 16:30 í fundarsal Landmælinga Íslands, Stillholti 16-18, Akranesi og að því loknu verður gengið út í Innstavogsnes. Þeir sem vilja einungis taka þátt í gönguferðinni geta mætt við Innstavog kl 17:30.
Gert er ráð fyrir að gönguferðin taki u.þ.b. einn og hálfan klukkutíma.
Allir eru velkomnir á námskeiðið, sem er án endurgjalds, en þeir sem ekki sækja námskeiðið eru hvattir til að koma með í gönguferð á Degi íslenskrar náttúru.
Â
Â