Fara í efni

Gjaldfrjálst aðgengi landupplýsinga gerir Ísland að hástökkvara.

Þann 28. október var birt alþjóðleg samantekt á opnum gögnum opinberra aðila á síðunni https://index.okfn.org/ en þar fer fram mat á stöðu gagnanna, byggt á ritrýni talsmanna og sérfræðinga opinna gagna í hinu hnattræna samfélagi. Í þetta sinn er Ísland komið upp í 11. sæti. Samkvæmt upplýsingum frá The Open Knowledge Foundation er „stór hluti af því hversu ofarlega við erum Landmælingum Íslands að þakka“ en í matinu fá Landmælingar fullt hús stiga hvað varðar aðgang að kortagögnum (sem náðist við uppfærslu leyfisskilmála gagnanna nú nýlega).

Forsaga þessa árangurs er að í janúar síðastliðnum ákvað þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra í samvinnu við Landmælingar Íslands að öll stafræn gögn og landupplýsingar stofnunarinnar yrðu gerð aðgengileg og opin á vef stofnunarinnar, án gjaldtöku. Með samþykkt fjárlaga fyrir árið 2013 varð þessi ákvörðun að veruleika.

Stafræn kort og landupplýsingar eru notuð við margvísleg verkefni á vegum stofnana ríkisins, s.s. við eignaskráningu, skipulagsmál, náttúruvernd, náttúruvá, orkumál, rannsóknir og opinberar framkvæmdir. Þá eru gögnin, eftir gjaldfrelsið, í auknum mæli notuð af fyrirtækjum m.a. til að veita upplýsingar um ýmis konar þjónustu á samfélagsmiðlum og við gerð „appa“.

Nánari útlistun á flokkunum sem notaðir eru til að reikna út stigin fyrir Ísland má sjá á síðunni https://index.okfn.org/country/overview/Iceland/ en þar má sjá að Landmælingar fá fullt hús stiga.

Landmælingar Íslands fagna þessum árangri, en nefna má að frá því að gögnin voru gerð gjaldfrjáls hafa um 5000 aðilar skráð sig inn á heimasíðu stofnunarinnar til að sækja gögn. Þar hafa rúm 2 terabæti af gögnum verið sótt og er það um hundraðföld aukning á dreifingu gagna.

Â