Fara í efni

Gögn Landmælinga Íslands notuð víða

Frá því stafræn gögn Landmælinga Íslands voru gerð gjaldfrjáls í janúar 2013, hefur orðið mikil aukning í notkun þeirra, m.a. í smáforritum fyrir síma og önnur smátæki.

Fyrirtækið Ískort er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur nýtt sér gögn stofnunarinnar til kortagerðar og á vefnum www.iskort.is hefur nú verið sett upp kortasjá en kortin þar eru unnin upp úr IS 50V gagnagrunni Landmælinga Íslands. Að auki eru notuð ýmis önnur gögn s.s. mikið safn gönguleiða og upplýsinga um staðsetningu skýla og skála. Kortin eru einnig aðgengileg fyrir Android og Apple iOs spjaldtölvur og síma í gegnum PDF Maps hugbúnaðinn

Fyrirtækið Seiður ehf. er annað fyrirtæki sem hefur gert smáforrit fyrir Android stýrikerfi þar sem hægt er að skoða nöfn 4000 fjalla, hóla og hæða á öllu Íslandi á svipaðan hátt og um hringsjá væri að ræða. Forritið nefnist Hringsjá og er hægt að velja staðsetningu handvirkt á korti eða nota sjálfvirka staðsetningu tækis. Einnig er hægt að nota innbyggðan áttavita til að snúa landslaginu í rétta átt.

Það er ánægjulegt til þess að vita að gögn stofnunarinnar séu að nýtast betur en áður og á nýja vegu en stöðlun gagnanna og gjaldfrjáls notkun auðveldar til muna alla nýsköpun á þessu sviði.

 Á meðfylgjandi mynd má sjá Hringsjá.