Fara í efni

Fyrsta sameiginlega hæðarkerfið fyrir Ísland

Þann 15. desember síðastliðinn stóðu Landmælingar Íslands fyrir kynningarfundi í tilefni þess að nú er að verða til fyrsta sameiginlega hæðarkerfið fyrir allt Ísland. Á fundinum voru kynntar niðurstöður útreikninga vegna nýja hæðarnetsins og hugmyndir um viðhald og frekari mælingar ræddar.

Alls sóttu fundinn um 60 manns frá hinum ýmsu stofnunum, sveitarfélögum og verkfræðistofum.

 

Mælingar á sameiginlegu hæðarkerfi hafa staðið yfir frá árinu 1992 og hefur verkefnið verið unnið í góðri samvinnu Vegagerðarinnar og Landmælinga Íslands auk þess sem Landsvirkjun og Orkustofnun komu að verkefninu tímabundið. Útreikningar á hæðarkerfinu hafa verið samvinnuverkefni Landmælinga Íslands og Landmælingastofnunar Finnlands (Finnish Geodetic Institute, FGI). Með sameiginlegu hæðarkerfi fyrir allt landið er stigið stórt skref í landmælingum á Íslandi.

 

Uppbygging á einu sameiginlegu hæðarkerfi fyrir allt Ísland hefur verið eitt af mikilvægustu verkefnum Landmælinga Íslands undanfarin ár. Áður hafa verið í notkun á Íslandi nokkur aðskilin hæðarkerfi, flest á vegum Orkustofnunar og Vegagerðarinnar ásamt staðbundnum hæðarkerfum nokkurra stofnana og sveitarfélaga. Á milli þessara hæðarkerfa er oft talsverður hæðarmunur sem getur leitt af sér kostnaðarsamar mælingar þegar framkvæmdir á vegum ríkis eða sveitarfélaga ná yfir fleiri en eitt hæðarkerfi. Samræmt hæðarkerfi skapar grundvöll fyrir því að allir geti unnið með sömu hæðarviðmiðun sem felur í sér augljósan ávinning þar sem hætta á skekkjum minnkar mjög mikið auk þess tíma sem sparast við þessi vinnubrögð.

 

Hæðarkerfi eru notuð í margvíslegum tilgangi s.s. vegna kortagerðar í stórum og litlum mælikvarða auk þess sem þau eru grundvöllur mælinga vegna bygginga, vegagerðar, orkuvera og við áveitur. Hæðarkerfi eru einnig mjög mikilvæg vegna rannsókna á jarðskorpuhreyfingum, bæði staðbundnum og svæðisbundnum auk rannsókna á breytingum á sjávarhæð sem er mikið í umræðunni um þessar mundir vegna loftslagsbreytinga.

 

Gefinn verður út listi með öllum mælistöðvunum og þar verður að finna upplýsingar um stöðvarnar. Allar nánari upplýsingar gefa Guðmundur Valsson (gudmundur@lmi.is) eða Þórarinn Sigurðsson (thorarinn@lmi.is) en einnig verður hægt að nálgast upplýsingar hér á vef Landmælinga Íslands www.lmi.is.

 

Glærur Guðmundar (pdf, 3,6 mb)

Glærur Jaakkos (pdf, 1 mb)