Fara í efni

Fundur Sameinuðu þjóðanna um bætta notkun landupplýsinga

Í byrjun ágúst 2014 voru haldnir fundir á vegum Sameinuðu þjóðanna í New York, um alþjóðlegt samstarf til að auka og bæta notkun á landupplýsingum og kortum. Nafn þessa samstarfs og nýrrar skrifstofu Sameinuðu þjóðanna á sviðinu er UN-GGIM (United Nations initiative on Global Geospatial Information Management). Fundina sóttu forstjórar og fulltrúar stjórnvalda bæði frá faglegum stofnunum og ráðuneytum  frá 90 löndum og meðal þeirra var Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands. Aðalmarkmið er að skipuleggja alþjóðlegt samstarf til að nýta sem best kort og landupplýsingar og þróa aðferðarfræði til að samnýta og samræma tölulegar og landfræðilegar upplýsingar um allan heim. Þessar upplýsingar eru mikilvægar m.a. þegar um er að ræða náttúruhamfarir og vöktun loftslagsbreytinga. Meðal þess sem rætt var á fundunum var aukið samstarf milli korta- og fasteignastofnana annars vegar og tölfræði- og hagstofustofnana hinsvegar, vegna vinnu, birtingar og miðlunar  á mikilvægum upplýsingum, en fram kom sterkur vilji bæði í landafræðigerianum og tölfræðigeiranum til að auka samstarfið og samræma vinnubrögð. Samþykktar voru tillögur sem eiga að tryggja betra samstarf og samnýtingu gagna en á ýmsum sviðum er þó mikið starf framundan í þeim efnum. Þá kom fram að aukin þekking og skilningur á mikilvægi korta, landupplýsinga og tölfræði gerir stjórnmálamönnum auðveldara fyrir þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir t.d. í tengslum við breytingar á vistkerfi jarðar. Næsti fundur UN-GGIM verður haldinn í ágúst 2015 hjá SÞ í New York.