Fara í efni

Fundur með tæknimönnum stofnana

Þann 1. september héldu Landmælingar Íslands fund með tæknimönnum nokkurra stofnana sem eiga gögn tengd viðaukum I og II í INSPIRE tilskipuninni til að bera saman bækur sínar og fá yfirsýn yfir stöðu tæknimála. Á fundinn mættu fulltrúar Landgræðslu Íslands (LÍ), Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ), Þjóðskrár Íslands (ÞÍ), Vegagerðarinnar(VG), Umhverfisstofnunar (UST) og Skipulagsstofnunar (SK). Veðurstofa Íslands var að auki boðuð á fundinn en enginn fulltrúi frá þeim mætti. Fundurinn var haldinn í húsnæði Náttúrufræðistofnunar.

Á fundinum voru helstu niðurstöður þær að:

  • Flestar stofnanirnar reka eigin landupplýsingagrunna og þjónustur vegna þeirra og munu því geta veitt gögnum sínum inn í landupplýsingagátt LMÍ með einföldum hætti.  Það yrði gert sem WMS þjónusta en einnig er unnið að því að skoða möguleikana á WFS þjónustum fyrir niðurhal.
  • Fæstar stofnanir hafa byrjað að skrá lýsigögn eftir ISO stöðlum eða INSPIRE stöðlum en hafa þó áform um slíkt á næstunni. Fulltrúar LMÍ bentu á að fyrir þær stofnanir sem nýta sér ESRI hugbúnaðinn þá er Arc10 með innbyggt INSPIRE lýsigagnasniðmát.
  • Fæstir hafa kynnt sér þær innleiðingarreglur sem gefnar hafa verið út af INSPIRE en LMÍ kynnti hvar þær er að finna á heimasíðu INSPIRE. Mikilvægt er að þeir sem bera ábyrgð á gögnum undir viðauka I og II kynni sér þessar reglur sem fyrst. Þó má nefna að LMÍ hafa fest kaup á hugbúnaði sem kann að auðvelda yfirferð gagna frá stofnunum yfir á INSPIRE formið. Unnið er að því hjá LMÍ að kanna hvernig þessir þættir vinna saman.
  • LMÍ kynnti að fyrirhugað er að reka landupplýsingagátt samkvæmt nýjum lögum um grunngerð stafrænna landupplýsinga sem mun gefa upplýsingar um alla opinbera landupplýsingagrunna á Íslandi sem falla undir INSPIRE  skilgreiningu . Úr þessum grunni er síðan áætlað að veita gögnum inn í INSPIRE landupplýsingagátt Evrópusambandsins.

Að lokum bauð Þjóðskrá Íslands sig fram til að vinna með LMÍ að samtengingu kortaþjóna sinna við landupplýsingagáttina til að undirbúa enn betur aðkomu annarra stofnana. LMÍ stakk upp á að með haustinu myndi stofnunin halda námskeið í skráningu lýsigagna fyrir gagnasöfn sem falla undir grunngerðarlögin. Fulltrúar LMÍ hvöttu fundarmenn til að huga að skipulagi gagnagrunna sinna og hefjast handa við skráningu lýsigagna. Áætlað er að Landupplýsingagátt fyrir grunngerð stafrænna landupplýsinga verði opnuð í lok ársins 2011.

Tæknifólk Landmælinga Íslands þakkar fundarmönnum kærlega fyrir þátttökuna á fundinum og óskar eftir góðu samstarfi á næstu mánuðum og árum vegna innleiðingar laga um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar á Íslandi.

.

Â