Fullbúið jarðstöðvakerfi
Í lok árs var sett upp jarðstöð á Vopnafirði. Uppsetning þeirrar stöðvar markar tímamót þar sem nú telst Jarðstöðvakerfi Íslands, ICECORS, vera fullbúið. Hlutverk jarðstöðvakerfis er að auðvelda og bæta allar landmælingar hvort sem um er að ræða framkvæmdamælingar eða mælingar vegna vöktunar á náttúru landsins. Til þess að uppfylla kröfur notenda í nútíma samfélagi þarf jarðstöðvakerfi með 70 - 100 km stöðvaþéttleika og hefur það nú náðst með tengingu 33 jarðstöðva. Landmælingar Íslands sjá um rekstur kerfisins og 13 jarðstöðva, 17 eru reknar af Veðurstofu Íslands og þrjár eru reknar í samstarfi við erlendar landmælingastofnanir. Hver jarðstöð samanstendur af GNSS (GPS) tæki og loftneti ásamt búnaði til fjarskipta og eru öll gögn frá Jarðstöðvakerfi Íslands gjaldfrjáls.