Fara í efni

Frumvarp um örnefni lagt fram á Alþingi

Þann 26. mars síðastliðinn var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um örnefni. Markmið laganna er að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi og tryggja að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum; að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju; að ný örnefni séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð á svæðinu; að samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna þannig að ferli nafngifta sé opið, gagnsætt og skilvirkt.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Landmælingar Íslands sjái um viðhald og rekstur á miðlægum gagnagrunni um örnefni í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þá kemur fram að innihald gagnagrunnsins skuli vera aðgengilegt og endurnot hans án gjaldtöku, einnig að Landmælingar Íslands skulu gera almenningi kleift að skrá örnefni í sérstakan gagnagrunn á vegum stofnunarinnar.