Frumvarp til breytinga á lögum um landmælingar og grunnkortagerð lagt fram á Alþingi
Þann 22. febrúar síðastliðinn var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um landmælingar og grunnkortagerð. Í frumvarpinu er lagt til að Landmælingar Íslands sjái til þess að komið verði upp landupplýsingagrunni, honum viðhaldið og miðlað í þeirra nákvæmni sem þörf er á hverju sinni en ekki eingögnu bundið við 1:50.000 eins og nú er. Þá er lagt til að gjaldtökuheimild stofnunarinnar verði felld á brott til að festa í sessi gjaldfrelsi gagna Landmælinga Íslands sem var ákveðin af umhverfis- og auðlindaráðherra í janúar 2013.
Í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að miklar breytingar hafi orðið á tækni varðandi öflun, notkun og miðlun stafrænna landupplýsinga og hefur notkun almennings, fyrirtækja og stjórnvalda á þeim aukist verulega. Um alllangt skeið hafi verið til skoðunar í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hvort ráðast skuli í breytingar á lögum nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð, einkum til að bregðast við þeirri þróun sem hefur orðið hvað varðar öflun, notkun og miðlun stafrænna landupplýsinga og til að tryggja að miðlun stafrænna landupplýsinga sé í samræmi við þarfir stjórnsýslunnar, hagsmunaaðila og almennings.
Þá kemur fram að í kjölfar þess Google hóf fyrir nokkrum árum að miðla kortum og landupplýsingum án gjaldtöku á vefnum, hafi orðið veruleg aukning í notkun þessara gagna. Stafræn landakort og aðrar opinberar landupplýsingar með mikilli nákvæmni hafi í kjölfarið verið gerð aðgengileg án gjaldtöku víða um heim, með góðum árangri sem er m.a. mældur í stóraukinni notkun og nýsköpun á sviði upplýsingatækni.
Frumvarpið og skýringar með því er aðgengilegt á vef Alþingis.