Áframhaldandi samstarf um fjarkönnun við Háskóla Íslands
Eydís Líndal Finnbogadóttir, forstjóri Landmælinga Íslands og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, endurnýjuðu á dögunum samning um samstarf stofnanna um fjarkönnunarrannsóknir á Íslandi.
Fjarkönnun felst m.a. í myndatöku úr gervitunglum, flugvélum og drónum og að vinna úr þeim upplýsingar um yfirborð jarðarinnar, svo sem um breytingar á lífríki, hopun jökla og áhrif eldgosa á landslag.
Í samningnum felst m.a. að Háskóli Íslands verður aðili að fjarkönnunarstarfsemi hjá Landmælingum Íslands og að stofnanirnar tvær skiptast á fjarkönnunargögnum. Einnig munu stúdentar við Háskóla Íslands geta stundað nám í fjarkönnun í nánu samstarfi við Landmælingar Íslands.
Dr. Kolbeinn Árnason, sérfræðingur sem starfar við fjarkönnun hjá Landmælingum Íslands, verður sameiginlegur starfsmaður stofnananna tveggja með aðsetur hjá Landmælingum en starfsaðstöðu við Verkfræðistofnun Háskóla Íslands.