Frá árlegri INSPIRE ráðstefnu í Barcelona
Dagana 26. – 30. september síðastliðinn var haldin árleg INSPIRE ráðstefna, að þessu sinni í Barcelona á Spáni. Ráðstefnan var með þeim fjölmennari sem haldin hefur verið, en á henni voru rúmlega 1.100 ráðstefnugestir. Þrír fulltrúar frá Íslandi sóttu ráðstefnuna, tveir starfsmenn Landmælinga Íslands og einn starfsmaður umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Svið INSPIRE er ótrúlega vítt og mátti finna erindi og kynningar úr flestum kimum umhverfisvísinda og tæknimála sem tengjast aðgengi og uppbyggingu landupplýsinga, einnig um stefnumótun og stjórnun. Þá mátti heyra reynslusögur annarra þjóða af innleiðingu tilskipunarinnar. Á sérstöku sýningarsvæði kynntu auk þess ýmis fyrirtæki vörur og þjónustu sem nýtast við innleiðinguna.
Norrænt samstarf var í hávegum haft og kynntu fulltrúar Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands fyrirkomulag samstarfsins, sem mörgum þjóðum þykir mikið til koma og til eftirbreytni. Stórar spurningar réðu ríkjum heilt yfir eins og hvort of ítarlegar kröfur, eða ekki nægar, væru gerðar til þjóða og hvort þær væru hagkvæmar til skemmri eða lengri tíma. Ein vinnustofa helguð umræðu um hvað gert yrði með Evrópusamstarfið sem orðið hefur til í kjölfar INSPIRE, ef tilskipunina væri ekki að finna og hvernig gagnasamskipti yrðu byggð upp, en vinnustofan var ákaflega fjölsótt og lífleg.
Þessar ráðstefnur eru mikilvægur þáttur í endurmenntun starfsmanna sem sinna INSPIRE og viðhaldi tengslanets systurstofnana Evrópuríkjanna. Næsta ráðstefna verður haldin 4. – 8. september 2017 í landamærabæjunum Strasbourg í Frakklandi og Kehl í Þýskalandi og mælum við með henni fyrir starfsmenn opinberra aðila sem sinna innleiðingu INSPIRE.