Fara í efni

Forstjóri LMÍ kjörinn forseti EuroGeographics

 Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, verður forseti samtaka korta- og fasteignastofnana í Evrópu næstu tvö árin. Ársþingi samtakanna, EuroGeographics, lauk í dag 10. október 2007 í Dubrovnik í  Króatíu en Landmælingar Íslands og Fasteignamat ríkisins eiga aðild að þeim fyrir Íslands hönd. Meginþema ársþingsins að þessu sinni var “hlutverk korta- og fasteignastofnana á sviði umhverfismála og við að tryggja öryggi borgaranna”.
   Mjög gagnlegar umræður urðu um þetta mál enda brennandi viðfangsefni sem snertir allar þjóðir Evrópu með einum eða öðrum hætti.   „Á vettvangi EuroGeographics eru mörg brýn verkefni framundan þar sem kort, upplýsingar um fasteignir og aðrar landupplýsingar koma við sögu.  Slík gögn þurfa að uppfylla ákveðin gæði og vera aðgengileg hratt og vel t.d. þegar náttúruhamfarir, mengunarslys og hryðjuverk eiga sér stað. Einnig eru landupplýsingar orðnar hluti af daglegu lífi margra t.d. við notkun þeirra á netinu og í gegnum farsíma. Mikilvægt er að hvorki landamæri né mismunandi menning eða skipulag í einstökum löndum Evrópu hindri notkun og hagnýtingu upplýsinganna fyrir almenning og stjórnvöld“, segir Magnús, sem hefur átt sæti í stjórn EuroGeographics í 2 ár.
Nú eru 50 stofnanir frá 42 þjóðum Evrópu í EuroGeographics og hjá þeim starfa samtals um 55.000 manns. Samtökunum er ætlað að vera faglegur vettvangur korta- og fasteignastofnana í Evrópu og eru samtökin í virku samstarfi við Evrópusambandið þrátt fyrir að vera ekki ein af stofnunum þess. Áhersla er lögð á að koma faglegum sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld í Evrópu svo sem varðandi mikilvægi innra skipulags landupplýsinga og greiðan aðgang að slíkum gögnum til hagsbóta fyrir borgarana og stjórnvöld. Þátttaka íslensku stofnananna í þessu starfi er því mjög mikilvæg og tengist hagsmunagæslu Íslands og þekkingaröflun um hvað gerist í Evrópu á þessu sviði.