Fimmta Sentinel gervitungli ESA skotið á loft
Þann 7. mars sl. var nýju gervitungli á vegum ESA (Europian Space Agency) skotið á loft. Gervitunglið kallast Sentinel-2b og er systurtungl Sentinel-2a sem skotið var á loft árið 2015. Tunglin gegna lykilhlutverki við kortagerð af landi og gróðri og eru myndir frá þeim meðal annars notaðar í Corine verkefni sem Landmælingar Íslands eru aðilar að. Tunglin geta myndað allt yfirborð jarðarinnar á fimm daga fresti og eru þau á sama sporbaug en andspænis hvert öðru, sem þýðir t.d. að þegar annað tunglið er yfir Madrid þá er hitt yfir Wellington, höfuðborg Nýja Sjálands.
Sentinel-2 gervitunglin eru svo kölluð optísk gervitungl og er minnsta eining sem þau nema 10x10 metrar. Þau nema ljós frá jörðu á 13 mismunandi bylgjulengdum sem gerir þau sérstakleg góð til að vakta breytingar á yfirborði jarðar, s.s. á gróðri, umhverfisupplýsingum eða manngerðum hlutum.
Gervitunglin eru hluti af Copernicusaráætlun Evrópusambandsins en Ísland er aðili að Copernicusáætluninni og eru Landmælingar Íslands aðaltengiliðir við verkefnið hér á landi. Öll gögn frá Sentinel gervitunglunum, sem nú eru 5 talsins, eru öllum agengileg og án gjaldtöku. Gögnin er hægt að skoða á mörgum stöðum á netinu, t.d. hér á þessari slóð http://sentinel-pds.s3-website.eu-central-1.amazonaws.com/image-browser/#lat=65.13918752019713/lng=-19.7369384765625/zoom=7