Evrópudeild UN-GGIM stofnuð
Í ágúst síðastliðnum sögðum við á heimasíðu Landmælinga Íslands frá fundi Sameinuðu þjóðanna í New York um alþjóðlegt samstarf til að auka og bæta notkun á landupplýsingum og kortum. Nafn þessa samstarfs og nýrrar skrifstofu Sameinuðu þjóðanna á sviðinu er UN-GGIM (http://ggim.un.org/). Nú hefur Evrópudeild UN-GGIM verið sett formlega á laggirnar, en það var gert í kjölfar ársþings EuroGeographics sem haldið var í Moldóvu í byrjun október sl. Fundurinn var vel sóttur af stjórnendum frá 43 fasteigna- og kortastofnunum og 6 hagstofum í Evrópu, en Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands er fulltrúi Íslands í verkefninu.
Unnið hefur verið að undirbúningi UN-GGIM Europe í meira en eitt ár og skiluðu þrír vinnuhópar afrakstri sínum á fundinum þ.m.t. verkáætlun fyrir næstu misseri. Kosnir voru 11 fulltrúar í framkvæmdastjórn (Executive Committee) og var Bengt Kjellson forstjóri sænsku kortastofnunarinnar kosinn formaður. Auk þess var Rannsóknarmiðstöð Evrópusambandsins (Joint Research Centre), Umhverfisstofnun Evrópu (European Environmental Agency) og Hagstofu Evrópu (Eurostat) boðin áheyrnaraðild að verkefninu.
Ráðinn hefur verið sérstakur starfsmaður til UN-GGIM Europe og mun hann vinna að verkefninu á skrifstofu EuroGeographics í Brussel í Belgíu og hjá hollensku korta- og fasteignastofnuninni.
Nánarari upplýsingar má sjá með því að smella hér.
Â