Mynd úr Örnefnasjá Landmælinga Íslands
Móskarða- eða Móskarðshnúkar
Vissir þú að Móskarðahnúkar heita svo þó svo að þeir séu jafnvel þekktari undir nafninu Móskarðshnúkar?
En eru örnefni einhvern tímann rétt? Það er líklega ekkert óeðlilegt við þessa spurningu og enn líklegra að ekki sé heldur til neitt eitt svar við henni. Hjá Landmælingum Íslands og hjá Nafnfræðisviði stofnunar Árna Magnússonar (áður Örnefnastofnun) hefur um langt skeið verið safnað heimildum um örnefni, um uppruna þeirra, staðsetningu og rithátt. Fyrir stuttu voru Móskarðahnúkar mikið í fréttum vegna alvarlegs slyss sem þar varð. Á þeim tíma var nafn hnúkanna mikið í umræðu og í fyrirsögnum fréttamiðla. Nafnið var ritað með ýmsum hætti; Móskarðahnúkar, Móskarðshnúkar og Móskarðshnjúkar.
Við hjá Landmælingum Íslands grófum því upp heimildir fyrir nafninu og hér er örlítið til upplýsinga fyrir þá sem hafa áhuga á rithætti örnefna:
- Móskarðahnúkar draga nafn sitt af Móskörðum sem eru rétt vestan við hnúkana. Þar eru skörðin í fleirtölu.
- Heimamenn á svæðinu s.s. bændur hafa það í málþekkingu sinni að tala um Móskarðahnúka.
- Hnúkar eru ekki skrifaðir með j í þessu tilfelli en á vísindavefnum https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48341# segir Guðrún Kvaran þetta um málið: Athuganir sýna að orðmyndin hnjúkur er notuð um nánast allt Norður-, Austur- og Suðausturland og vestur fyrir Vatnajökul. Á Suður- og Vesturlandi er myndin hnúkur ráðandi. Samkvæmt þessu eru myndirnar Kárahnjúkar og Hvannadalshnjúkur með –j-i en Móskarðshnúkar í Esjunni –j-lausir.
Móskarðahnúkar skulu því ritast sem slíkir, þó svo að þeir séu einnig þekkir með s eins og þeir vísi til eins af Móskörðunum.
Örnefni eru hinsvegar í eðli sínu síbreytileg enda geta þau verið lýsandi fyrir þann tíðaranda sem ríkir þegar þau verða til. Við hjá Landmælingum Íslands munum þó samkvæmt okkar heimildum (og heimildum Árnastofnunar) halda áfram að skrifa Móskarðahnúkar á okkar kort. Það er þó öllum í sjálfsvald sett hvaða rök þeir nýta fyrir sínum skrifhætti og hvað fólk ákveður að temja sér í almennu máli.