Endurmæling á grunnstöðvaneti Íslands
Í sumar fer fram endurmæling á grunnstöðvaneti Íslands. Grunnstöðvanetið hefur verið mælt tvisvar áður, árið 1993 og 2004 og samhliða því voru gefnar út viðmiðaninnar ISN93 og ISN2004. Í reglugerð er gert ráð fyrir að endurmæling fari fram eigi sjaldnar en á 10 ára fresti en skortur á fjárveitingum til verkefnisins tafði það um tvö ár.
Gert er ráð fyrir að mæla 123 punkta í kerfinu að þessu sinni, auk mælinga frá um 100 föstum jarðstöðvum Landmælinga Íslands og samstarfsaðila. Mælingar á hverjum punkti fara þannig fram að GNSS landmælingatæki er stillt upp á mælipunkti og það látin mæla í 3-5 sólarhringa. Gert er ráð fyrir að 12 - 18 tæki séu að mæla á hverjum tíma en sá tækjabúnaður kemur nú að mestu eða öllu leyti frá Landmælingum Íslands eftir að systurstofnunin Kartverket í Noregi útvegaði stofnuninni 15 nýleg tæki til mælinganna.
Að mælingunum loknum tekur við mikil eftirvinnsla á gögnunum með það lokamarkmið að skilgreina og gefa út nýja viðmiðun fyrir Ísland, ISN2016. Mjög mikilvægt er að sú viðmiðun komist sem fyrst í notkun hjá framkvæmdaaðilum því gera má ráð fyrir að bjögun í núgildandi viðmiðun ISN2004 sé 20-25 cm og bjögun ISN93 er 40-50 cm.