Endurheimt votlendis á Íslandi
Ríkisstjórn Íslands kynnti nýlega sóknaráætlun í loftslagsmálum til þriggja ára, sem er ætlað er að skerpa á áherslum Íslands í loftslagsmálum og efla starf í málaflokknum til að raunverulegum árangri í að minnka nettólosun verði náð. Verkefni og áherslur sem kynnt eru undir hatti sóknaráætlunar eru fjölbreytt og mörg hver sjálfstæð en eiga það m.a. sameiginlegt að efla baráttuna gegn loftslagsbreytingum og virkja betur einstaklinga og atvinnulíf. Sóknaráætlun er sett fram í tengslum við 21. aðildarríkjafund Loftslagssamningsins í París (COP21) í byrjun desember, þar sem reynt verður að ná hnattrænu samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2030.
Áætlunin byggir á 16 verkefnum sem miða að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum. Eitt þessara verkefna miðar að endurheimt votlendis og verður ráðist í fyrstu verkefni undir þeim hatti sumarið 2016 á grunni starfshóps, sem hefur kortlagt vænleg svæði til endurheimtar, m.a. á þjóðlendum.
Landmælingar Íslands hafa síðan 2007 tekið þátt í samevrópsku landflokkunarverkefni, CORINE (Coordination of Information on the Environment) sem miðar að eftirliti með breytingum á landgerðum og landnýtingu í álfunni. CORINE-flokkunin er uppfærð á 6 ára fresti með sömu aðferðum í öllum Evrópulöndum og eru nýjar gervitunglamyndir notaðar til þess að kortlegga breytingarnar. Í CORINE eru alls 44 landgerða-/landnýtingarflokkar og af þeim fyrirfinnast 32 hér á landi. Minnstu kortlögðu einingar eru 25 ha og mjóstu fyrirbæri 100 m á breidd en breytingar eru kortlagðar með 5 ha nákvæmni. Fyrsta CORINE flokkunin hér á landi miðaðist við árið 2000, en síðan hefur hún verið uppfærð fyrir árin 2006 og 2012. Næsta uppfærsla er ráðgerð 2018.
Myndin sýnir útbreiðslu votlendis á Íslandi samkvæmt niðurstöðum CORINE. Flatarmál mýra á Íslandi telst vera 7013 km2 og nær því yfir 6,8% af heildarflatarmáli landsins og hefur lítið breyst á undanförnum árum en hefur þó örlítið minnkað, um 5 km2 milli 2000 og 2006 og 14 km2 milli 2006 og 2012 aðallega vega túnræktar. Framræstar mýrar flokkast aðallega sem graslendi annars vegar eða tún og bithagar hins vegar og sjást framræsluskurðirnir vel á þeim gervitunglamyndum sem notaðar eru við flokkunina.