Endurbættar leiðbeiningar fyrir Landupplýsingagátt
Leiðbeiningar fyrir Landupplýsingagátt Landmælinga Íslands hafa nú verið lagaðar og einfaldaðar. Landupplýsingagátt er einföld og þægileg veflausn þar sem hægt er að skrá og deila upplýsingum um gagnasöfn sem tengjast landupplýsingum um Ísland. Í leiðbeiningunum er útskýrt hvernig á að skrá lýsigögn í gáttina þannig að kröfur sem gerðar eru fyrir grunngerð landupplýsinga á Íslandi séu uppfylltar.
Nú þegar hafa 17 stofnanir og eitt sveitarfélag fengið skráningaraðgang í Landupplýsingagáttina og hafið skráningu lýsigagna um gagnasöfn og þjónustur sem heyra undir grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar. Samanlagt hafa þessir aðilar skráð lýsigögn fyrir tæplega 100 gagnasöfn eða þjónustur.
Með skráningu upplýsinga í Landupplýsingagáttina er veittur stuðningur við meginreglur grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar um að:
- Gögnum skal safnað einu sinni og haldið við á sem hagkvæmastan hátt
- Einfalt yfirlit verði til yfir hvaða gögn og þjónusta er í boði (lýsigögn)
- Gögn séu notuð frá upprunastað sínum
- Hægt verði að nota gögn frá mörgum í mismunandi samhengi