Dagur umhverfisins
Á sumardaginn fyrsta 25. apríl var Dagur umhverfisins og í tilefni þess ákvað starfsfólk Landmælinga Íslands að láta sitt ekki eftir liggja í því að bæta umhverfið. Starfsfólkið dreif sig út í góða veðrið í morgun 26. apríl, slóst í för með starfsfólki á Bæjarskrifstofu Akraneskaupstaðar og tíndi rusl í nærumhverfinu. Gengið var með stóra ruslapoka niður Stillholt, Kirkjubraut og alveg niður á Akratorg og allt rusl á umferðareyjum, meðfram runnum, grindverkum og víðar fjarlægt. Á meðfylgjandi myndum má sjá kampakáta starfsmenn sem voru að vonum ánægðir með framtakið.