Myndin til vinstri er SPOT-5 mynd tekin 7. 9. 2010, en sú til hægri er Sentinel-2 mynd frá 27. 7. 2017.
Árangur landgræðslu á Hólasandi í Suður-Þingeyjasýslu.
Meðfylgjandi myndir eru gervitunglamyndir af Hólasandi í Suður-Þingeyjarsýslu sem teknar eru með 7 ára millibili. Myndin til vinstri er SPOT-5 mynd tekin 7. 9. 2010, en sú til hægri er Sentinel-2 mynd frá 27. 7. 2017. Neðst á myndunum sést í Sandvatn og Mývatn, en Bæjarfjall við Þeistareyki er efst í hægra horninu. Breidd svæðisins sem myndirnar sýna er 14 km. Myndirnar eru settar saman úr tíðniböndum í grænu, rauðu og nærinnrauðu ljósi (G, R, NIR) og kemur gróið land fram í rauðum litum á þeim. Árangur umfangsmikils uppgræðslustarfs á undanförnum árum er augljós þegar þessar myndir eru bornar saman. Stór hluti sandsins er núna hálfgróinn eða jafnvel algróinn.
CORINE landgerðaflokkunin 2018
Í CORINE flokkast land m.a. í ógróið, hálfgróið og algróið land sem svo aftur skiptist í nokkra gróðurflokka. Samkvæmt skilgreiningu hefur hálfgróið land 10 – 50% gróðurþekju í CORINE-flokkuninni. Við uppfærslu CORINE flokkunarinnar 2018 á þessu svæði voru eftirfarandi breytingar frá 2012 skráðar:
- Urð og grjót breytist í hálfgróið land (einkum lúpínu): samtals 41,6 km2
- Hálfgróið land breytist í algróið land: samtals 7,8 km2
Samkvæmt þessu hafa á seinustu árum orðið verulegar jákvæðar gróðurbreytingar á tæplega 50 km
2 svæði á Hólasandi. Þetta er þó ekki eina landgræðslustarfsemin á sandinum þar sem þar eru einnig skógræktarsvæði sem í allt eru 456 hektarar (4,56 km
2) að stærð.
Alltaf má deila um það hvenær 10% (eða 50%) gróðurþekju er náð og hefur verið farið mjög varlega í að skrá breytingar á gróðurþekju í CORINE verkefninu. Það er því vel hugsanlegt að hluti þessara breytinga hefði átt að koma fram í kortlagningunni 2012.