Copernicus Sentinel dagatal 2019
Á vef Geimferðastofnunar Evrópu er að finna nýtt dagatal fyrir árið 2019. Dagatalið er með myndum sem teknar eru hér og þar af Jörðinni úr Sentinel-2 gervitunglunum. Mynd marsmánaðar er af suðvesturhorni Íslands og er Akranes á miðri skýjalausri myndinni. Myndin er tekin árið 2017 en því miður er ekki að finna upplýsingar um dagsetningu.
Sentinel-2 gervitunglin eru tvö og gegna þau lykilhlutverki í sambandi við umhverfiseftirlit á jörðinni og kortlagningu á þeim breytingum sem verða á yfirborði jarðar með tímanum. Hjá Landmælingum Íslands eru Sentinel-2 myndirnar m.a. notaðar við uppfærslu á Corine landflokkunarverkefninu innan Copernicusar-áætlunar ESB sem Ísland er aðili að. Tunglin geta myndað allt yfirborð jarðarinnar á örfárra daga fresti og eru þau á sama sporbaug en andspænis hvort öðru (180° fasamunur), sem þýðir t.d. að þegar annað tunglið er yfir Madrid þá er hitt yfir Wellington, höfuðborg Nýja Sjálands.