Fara í efni

Bráðnun jökla á Íslandi

Sóknaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum sem kynnt var nýlega, byggir á 16 verkefnum sem miða að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum. Verkefnin skiptast í þrjá flokka: 1) Verkefni til þess að draga úr nettólosun á Íslandi, 2) Alþjóðlegar áherslur og verkefni til að draga úr losun á heimsvísu og 3) Styrking innviða. Undir liðnum „Styrking innviða“ eru verkefni sem miða að því að greina afleiðingar loftslagsbreytinga og miðla þeim til almennings og þeirra sem bera ábyrgð á viðbrögðum við breytingum á náttúrufari. Eitt þessara verkefna er „Jöklar Íslands – Lifandi kennslustofa um loftslagsbreytingar“. Í CORINE landflokkunarverkefninu sem Landmælingar Íslands taka þátt í eru jöklar sérstakur flokkur. CORINE (Coordination of Information on the Environment) er samevrópskt verkefni, sem miðar að eftirliti með breytingum á landgerðum og landnýtingu í álfunni með notkun gervitunglamynda en flokkunin er uppfærð á 6 ára fresti með sömu aðferðum og á sama tíma í öllum Evrópulöndum. Alls eru 44 landgerða-/landnýtingarflokkar í CORINE, en af þeim fyrirfinnast 32 hér á landi. Minnstu kortlögðu blettir eru 25 ha (t.d. ferningur með 500 m hliðarlengd eða hringur með 280 m radíus) og mjóstu fyrirbæri 100 m á breidd, en breytingar eru kortlagðar með 5 ha nákvæmni. Fyrsta CORINE flokkunin hér á landi miðaðist við árið 2000, en síðan hefur hún verið uppfærð fyrir árin 2006 og 2012. Næsta uppfærsla er ráðgerð 2018. Samkvæmt niðurstöðum CORINE var heildarflatarmál jökla á Íslandi 11.082 ferkílómetrar árið 2000 en minnkar um 180 km2 eða 1,62% til 2006 þegar það mælist 10.901 km2. Bráðnun jöklanna heldur áfram eftir 2006 og árið 2012 er það 10.600 km2. Milli 2006 og 2012 hafa jöklarnir því rýrnað um 267 km2 eða 2,42%. Ekki er þó þar með sagt að hraði bráðnunarinnar hafi aukist frá því sem hún var milli 2000 og 2006 sem þessum hlutfallstölum nemur því taka verður tillit til þess að samkvæmt reglum um uppfærslu á CORINE-flokkuninni verður jökuljaðar að hafa færst til (hopað) um að minnsta kosti 100 metra til þess að breytingin sé kortlögð. Breytingar sem ekki náðu máli milli 2000 og 2006 gerðu það hins vegar sums staðar ef allt árabilið 2000 - 2012 er skoðað og koma því fyrst fram í uppfærslunni 2012. Hvergi sjást hins vegar merki um að jöklar hafi skriðið fram á tímabilinu 2000 – 2012.                     Myndirnar sýna landgerðabreytingar sem urðu annars vegar milli 2000 og 2006 og hins vegar milli 2006 og 2012. Áhersla er lögð á að sýna jöklabreytingar sem eru settar fram með mettuðum rauðum lit en aðrar breytingar eru með daufum rauðum eða bleikum lit. Augljóst er að algengustu landgerðabreytingarnar eru í báðum tilvikum rýrnun jöklanna en einnig breytingar á farvegum nokkurra helstu jökulánna sem flæmast sífellt um sandana sem þær hafa myndað í tímans rás. Ein áberandi breyting af öðrum toga milli 2006 og 2012 er tilkoma Hálslóns norðan Vatnajökuls.