Fara í efni

Birting örnefna á loftmyndum í nýrri örnefnasjá

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru opna Landmælingar Íslands nýja örnefnasjá á vefsíðunni http://atlas.lmi.is/ornefnasja/

Örnefni skipa mikilvægt hlutverk í sögu Íslands. Þau hafa sagt þjóðinni til um hvar atburðir hafa átt sér stað, hvernig land hefur verið nytjað eða hvernig eignamörk voru afmörkuð svo dæmi séu tekin. Áður en GPS tæki tóku til við að segja fólki til um staðsetningu gegndu örnefni mikilvægu hlutverki í að leiða menn áfram um óbyggt og hrjóstrugt landið og gera enn þegar tæknin bregst okkur. Örnefnasjá Landmælinga Íslands er vefsjá þar sem megin markmiðið er að opna aðgengi að örnefnum á auðveldan og notendavænan hátt en Landmælingar Íslands halda utan um slíkan grunn samkvæmt lögum. Örnefnagrunnur Landmælinga Íslands inniheldur yfir 58 000 örnefni og fer þeim sífellt fjölgandi enda mikill áhugi almennings á varðveislu örnefna og því um leið sögu íslenskrar þjóðar og náttúru.

 Örnefnagagnagrunnurinn 

Í örnefnasjánni er að finna yfir 58 000 örnefni úr örnefnagrunni Landmælinga Íslands sem flest eru fengin með hnitum af eldri kortum eða með vettvangsferðum. Örnefnagrunnurinn hefur á undanförnum árum einnig verið unninn í samvinnu við nafnfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þá hafa valdir skráningaraðilar einnig rétt til að skrá örnefni í grunninn. Í vefsjánni eru útgefin örnefni en það eru örnefni sem eru hluti af örnefnum IS 50V gagnagrunnsins en tvær útgáfur koma út á ári, að vori og vetri.

Birting örnefna á loftmyndum

Í Örnefnasjánni er hægt að skoða örnefni ofan á SPOT-5 gervitunglamyndum líkt og áður var hægt í kortasjá Landmælinga Íslands. Sú nýjung er aftur móti í nýrri Örnefnasjá að þegar þysjað er inn í myndirnar í mælikvarða 1:50 000 taka við loftmyndir sem undirlag örnefnanna. Loftmyndirnar sem birtast í þessari örnefnasjá eru í eigu Loftmynda ehf. og er öll afritun óheimil nema með samþykki fyrirtækisins.

Birting örnefna

Fjöldi þeirra örnefna sem birtast eykst eftir því sem þysjað er innar í gögnin. Þegar þysjað hefur verið inn í mælikvarða 1:2 000 birtast öll örnefni sem er að finna í útgefnum örnefnum Landmælinga Íslands.

Ábendingar

Allar ábendingar um Örnefnasjána eða um örnefni sem vantar inn, eru á röngum stað eða misrituð eru vel þegnar og sendast inn ásamt fullu nafni sendanda, kennitölu, heimilisfangi, síma og helstu heimildum á ornefni@lmi.is. Aðgengi að Örnefnasjá LMÍ er einnig á heimasíðu stofnunarinnar www.lmi.is.

 

Frekari upplýsingar veitir forstöðumaður sviðs miðlunar og grunngerðar Eydís Líndal Finnbogadóttir s. 430 9000, elf@lmi.is.