Fara í efni

Atvinnuátak fyrir námsmenn

Nýlega fengu Landmælingar Íslands heimild frá Vinnumálastofnun til að ráða tíu námsmenn og/eða atvinnuleitendur til vinnu í sumar. Um er að ræða átak í atvinnumálum námsmanna til að draga úr atvinnuleysi. Fimm námsmenn og einn atvinnuleitandi munu hafa vinnuaðstöðu hjá stofnuninni á Akranesi en auk þess var leitað eftir samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík og hafa verið settar upp tvær starfsstöðvar á hvorum stað. Helstu verkefni sumarstarfsmanna beinast að átaki í skráningu og varðveislu örnefna en markmið þess er að bjarga menningarverðmætum, skapa tímabundin störf og ekki síður að tryggja aðgengi almennings að örnefnum á vefnum. Átakið mun skapa vinnufúsum námsmönnum uppbyggjandi og mikilvæg störf í sumar en einnig er verkefnið gott dæmi um hvernig ólíkar stofnanir geta með árangursríkum hætti unnið saman í þágu samfélagsins. Sumarstarfsmennirnir koma úr ýmsum greinum: landfræði, jarðfræði, fornleifafræði, umhverfisskipulagsfræði, náttúru- og umhverfisfræði, tölvunarfræði, sjúkraþjálfun, vélaverkfræði. Þau stunda nám við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.