ArcticDEM landhæðarlíkan af Íslandi
Á síðustu árum hefur gögnum verið aflað fyrir nýtt landhæðarlíkan á norðurhveli jarðar, norðan við 60°N, þar með talið af Íslandi. Almennt er það nefnt Arctic-landhæðaríkan (e. ArcticDEM) og er unnið af Bandaríkjamönnum. Vinnan fer fram við Polar Geospatial Center (PGC) sem er innan veggja Minnesota háskóla. Líkanið er unnið úr gervitunglamyndum og eru notuð myndpör (stereoscopic) frá gervitunglum á borð við WorldView-1, WorldView-2, WorldView-3 og GeoEye-1. Greinihæfni mynda frá þessum tunglum er á bilinu 31-46 cm. Með þessum gögnum er unnið landhæðaríkan þar sem minnstu reitir eru 2x2 m. Þetta þýðir að ef öllu Íslandi er deilt upp í 4 m2 reiti hefur hver slíkur eitt hæðargildi. Þær myndir sem notaðar eru til verkefnisins eru yfirleitt 2-3 ára en allt að 6-7 ára gamlar. Mjög öflugur hugbúnaður er notaður við verkið og hefur miklum gögnum þegar verið komið á framfæri en allir geta sótt gögnin á niðurhalssíðu PGC. Þótt gögnin teljist almennt góð er engu að síður þörf á að lagfæra eða leiðrétta agnúa sem í þeim finnast. Landmælingar Íslands hafa sótt gögnin og þar fer fram vinna við lagfæringar þeirra. Nú er hægt að nálgast sýnishorn af þessari vinnu á niðurhalssíðu Landmælinga, en svæði á SV-landi, frá Kleifarvatni til Reykjavíkur, hefur verið lagfært. Gögnin innihalda landhæðarlíkan (2-m-greinihæfni), 2-m-hæðarlínur og hæðarskyggingu (hillshade).
Â