Fara í efni

Af Klofalækjarkjafti og fleiri örnefnum

Klofalækjarkjaftur.
Klofalækjarkjaftur.
Starfsmenn örnefnamála hjá Landmælingum Íslands skemmtu sér vel í gær þegar frétt um örnefni var ein mest lesna frétt dagsins á mbl.is  Í fréttinni voru til umræðu nokkur löng og um margt sérstök örnefni á Íslandi sem fengin höfðu verið af reddit.com vefnum. Í örnefnagrunni Landmælinga Íslands er að finna umrædd örnefni ásamt ríflega 100.000 öðrum. Um Klofalækjarkjaft má lesa í örnefnalýsingu Gunnarsholts og Brekkna, sem varðveitt er hjá nafnfræðisviði Árnastofnunar, en þar segir: „Suðausturhornmark Gunnarsholtslands er, þar sem Klofalækur (2) rennur í Hróarslæk, og heitir þar Klofalækjarkjaftur (3).“ Árnastofnun heldur utan um þessar örnefnalýsingar. Umræðan í gær var þó ekki aðeins skemmtileg heldur einnig gagnleg þar sem innsláttarvilla í einu nafninu kom í ljós í örnefnagrunni LMÍ og var hún leiðrétt hið snarasta og mun skila sér í næstu uppfærslu korta- og örnefnasjár í upphafi næsta sumars. Einnig kom í ljós að Litluspjóthólmaflögur eru ritaðar með öðrum hætti í örnefnagrunni LMÍ eða Litlu-Spjóthólmaflögur enda er stuðst við íslenskar ritháttarreglur við skráningu nafna hjá LMÍ, í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Örnefnin í örnefnagrunni LMÍ eru skráð eftir fjölmörgum heimildum og daglega er unnið að lagfæringum og endurbótum ásamt nýskráningu nafna. Staðkunnugir heimildarmenn gegna lykilhlutverki við staðsetningu örnefnanna og nýta til þess áðurnefndar örnefnalýsingar. Landmælingar Íslands vilja því koma því á framfæri að við leitum eftir staðkunnugu fólki sem er tilbúið til að aðstoða við staðsetningu örnefna. Á annað hundrað heimildarmenn hafa unnið með LMÍ og eru þeir dreifðir um allt land en sá elsti er núna 95 ára. Ef einhver er vel staðkunnugur og hefur áhuga á að starfa með LMÍ að skráningu og leiðréttingu örnefna þá má hafa samband við stofnunina á lmi@lmi.is Með því að leita í kortasjá LMÍ má finna mörg skemmtileg örnefni og hvetjum við alla til að leita, þysja inn, lesa og skemmta sér yfir þessari þjóðargersemi sem örnefnin eru.