Af fundi forstjóra norrænna kortastofnana
Fundur forstjóra og helstu stjórnenda norrænna korta- og fasteignastofnana var haldinn í Keflavík dagana 22.-24. ágúst sl. Samstarf þessara norrænu systurstofnana á sér langa sögu og byggir á sérstökum samningi þeirra á milli. Fundir sem þessir eru haldnir árlega en á þeim bera fulltrúar stofnananna saman bækur sínar og fara yfir samstarfsverkefni.
Meðal þess sem fjallað var um á fundinum að þessu sinni var aðkoma Norðurlandanna að evrópskum korta- og fasteignaverkefnum, samstarf um samtengingu kortagagna á Norðurslóðum undir nafninu Arctic SDI, nýtingu fjarkönnunargagna við uppfærslu korta- og fasteignaupplýsinga innan COPERNICUS áætlunar Evrópusambandsins og samstarf innan Sameinuðu þjóðanna um samtengingu og nýtingu landupplýsinga um allan heim.
Fundurinn var vel sóttur en fulltrúar frá Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi, Grænlandi og Færeyjum tóku þátt í honum auk fulltrúa Íslands sem komu frá Landmælingum Íslands og Þjóðskrá Íslands.
Fyrir íslenskar stofnanir er norrænt samstarf sem þetta afar mikilvægt en með samstarfi stjórnenda systurstofnana á Norðurlöndum myndast tengslanet sem auðvelt er að nýta við úrlausn flókinna verkefna, tæknilegra sem og stjórnsýslulegra.
Â