17.623 örnefni skráð í landsátaki
Í tilefni af degi íslenskrar náttúru þann 16. september 2021 var Hvar er? – eins árs landsátaki í söfnun örnefna hleypt af stokkunum í Lyngbrekku á Mýrum í Borgarbyggð að viðstöddum þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni.
Verkefnið var samstarfsverkefni Landmælinga Íslands (LMÍ) og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (StÁM). Markmið landsátaksins var að vekja athygli fólks á örnefnum og leitast við að fá staðkunnugt fólk alls staðar að af landinu til að koma að staðsetningu örnefna í kortagrunn. Einfalt skráningarviðmót var útbúið til að einfalda skráninguna og örnefnateymi Landmælinga Íslands ferðaðist um landið og hélt alls 12 örnefnanámskeið á tímabilinu. Námskeið voru haldin á Höfn í Hornafirði, Djúpavogi, Breiðdalsvík, Sauðárkróki, í Bláskógabyggð, á Akranesi, í Borgarnesi, á Patreksfirði, Tálknafirði, Ísafirði, Hólmavík og í Árneshreppi.
Í því tímabili sem átakið náði fyrir þá voru 17.623 örnefni skráð og staðsett í örnefnagrunn LMÍ.
Landmælingar Íslands eru hvergi nærri hættar þótt landsátakinu sé nú formlega lokið og óska eftir að fólk hafi samband ef það hefur upplýsingar um staðsetningu örnefna sem eru í örnefnalýsingu og eru ekki nú þegar komin í örnefnagrunninn. Einnig er vel tekið á móti athugasemdum og leiðréttingum og þær skoðaðar. Skráning örnefna í gegnum Hvar er? verður einnig opin áfram.
Myndin sýnir hvar örnefni voru skráð á meðan á átakinu stóð.