Þarftu að varpa hnitum?
Það færist í aukana að unnið sé með hnit til að gefa upp staðsetningar. Þannig eru fylgja hnit oft upplýsingum um fallega ferðamannastaði eða veiðstaði villtra dýra þó almenningur vinni líklega oftast með hnit í tengslum við jarðir, lóðir eða einhverjar framkvæmdir.
Þessi hnit geta verið á ýmsu formi þó öll eigi þau það sameiginlegt að segja til um hnattstöðu þess fyrirbæris sem verið er að vinna með. Sú staða getur komið upp að nauðsynlegt sé að varpa hniti yfir á annað form (s.k. viðmiðun) t.d. ef hnit er í gráðum en þarf að skila í ISN2016. Það vefst fyrir flestum að varpa slíkum hnitum milli hnitakerfa, enda flókið og eitthvað sem fæstir þurfa að gera nema nokkrum sinnum yfir ævina. Til að einfalda þessa vörpun er að finna vörpunarforrit á vef LMÍ, Cocodati þar sem hægt er að breyta á milli helstu hnitaforma og varpa á milli ISN hnitakerfanna. Einnig er hægt að breyta sporvöluhæðum yfir í ISH2004 hæðir og öfugt. Á vefnum er einnig að finna leiðbeiningar um hvernig viðmiðun er breytt.
Á meðfylgjandi mynd er dæmi þar sem hnitinu 64°21‘59‘‘ var breytt í Lambert hnit í nýja landshnitakerfinu ISN2016.